
Þá er ég kominn heim í Elliðaárdalinn eftir fimm daga ferðalag um Hornstrandir norð-vestanverðar, frá Hornvík um Hlöðuvík, Fljótavík og Aðalvík að Hesteyri.
Ferðalagið var vel heppnað í alla staði. Veðrið að mestu til eftirbreytni fyrir íslenska verðáttu og ferðafélagarnir brugðust ekki fremur en fyrri daginn.
Ferðalagið hófst á miðvikudegi síðastliðinnar viku (19. júlí) við að Arnar sótti undirritaðann í

Hábergið á nýsprautuðum, helbreyttum Nissan Patrol. Allur farangur var þá löngu tilbúinn og óþolinmæði farin að gera vart við sig. Við ókum rakleiðis af stað og létum vart staðar numið fyrr en á tjaldstæðinu á Ísafirði þar sem fleiri ferðafélagar voru að gera sig klára fyrir átökin. Þrem bílum var komið fyrir á Bolungarvík til að ferja mannskapinn aftur til Ísafjarðar þegar til baka yrði komið. Við sváfum um nóttina við lækjarnið.
Morguninn eftir varð heilmikill hasar við að koma mannskapnum niður á höfn. Það hafðist þó með velvilja skiptstjórans sem beið eftir síðustu farþegunum. Siglinginn í Hornvík tók um rúma þrjá tíma og var viðburðalítil, enda þoka á leiðinni og skygni afar takmarkað. Veiðimennirnir í hópnum urðu þó varir við svartfuglsflokka á sjónum. Þegar í Hornvík var komið óðum við í land (enda engin bryggja), og hittum strax fyrir Jón landvörð. Fróður maður með meiru sem fræddi okkur mikið um svæðið og reglum sem ferðalöngum ber að fylgja.
Eftir að við vorum búin að tjalda gengum við út á Hornbjarg og yfir Miðfell. Á Miðfelli skriðum við uppúr þ0kunni og við blöstu Kálfatindar og Jörundur eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Ævintýraleg sjón svo ekki sé meira sagt. Veiðimennska greip tvo ferðalanga sem renndu fyrir fiski í árósi við Hornvík. Aflaðis vel. Eitthvað var um vel heppnaðar veiðar á spendýrum líka en ekki verður farið nánar út í það hér.
Um 11 leitið morguninn eftir var gengið af stað áleiðis í Hlöðuvík í blíðskaparverðri. Útsýnið var með ólíkindum. Við tókum útúrdúr til aðskoða stórfengleg fuglabjörg á leiðinni. Við hittum einnig norsk-hollenska konu á leið frá Hornströndum að Skaftafelli. Ærið ferðalag það og áætlaði hún að það tæki 50 daga. Í Hælavík kveiktum við varðeld eftir að tjöldin voru komin upp. Heldur kalt var í veðri svo við vöktum ekki lengi yfir bálinu, heldur skriðum í pokana.
Þriðji dagur ferðar var tekinn snemma, enda lengsti dagurinn framundan. Um níuleitið var haldið að stað yfir Þorleifsskarð í Fljótavík. Veðrið varð hið besta, þrátt fyrir að kalt hafi verið árla morguns. Gangan var löng og erfið og lá meðal annars meðfram Fljótavatni endilöngu. Við syðri enda vatnsins veiddist sjóbleikja, sem ekki er í frásögur færandi, nema að því leiti að hún veiddist með göngustaf. Magnús sló bleikjuna í rot eftir mikinn atgang þar sem bún spriklaði í grunnum læk. Lágfóta naut góðs af síðar. Við tjölduðum í fallegu veðri við norðurenda vatnsins. Ég sofnaði værum svefni með galopið tjald og sólsetrið allsráðandi á meðan aðrir fengu heimsókn frá nágrönnum okkar í sumarhúsum hinu megin við ósa fljótsins.
Á fjórða degi sváfum við frameftir. Göngan yfir í Aðalvík úr Fljótavík er stutt og átti að njóta hvíldar. Við gengum í fallegu veðri alla leiðina og þegar í Aðalvík var komið biðu okkar gnægtir lúxusmatvæla sem sendar höfðu verið með báti daginn áður. Um kvöldið átum við grillað læri og drukkum kóka kóla, vín og bjór. Svo sátum við fram eftir kvöldi við varðeldeld og nutum lífsins.
Við fórum snemma á fætur á fimmta degi. Arnar stóð fyrir vel útilátnum morgunverði, beikoni, eggjum og tilheyrandi. Eftir að honum hafði verið gerð góð skil var gengið af stað sem leið lá yfir Hesteyrarskarð í átt að Hesteyri þar sem bátur skyldi bíða okkar klukkan fjögur. Gengið var í blíðskaparveðri, því besta hingað til. Við komum í Hesteyri um tvöleitið og gátum því slakað á meðan beðið var eftir bátunum. Á Hesteyri er gistiheimili og kaffihús þar sem við fengum keyptar pönnukökur og kaffi. Ekki amalegt það. Eitthvað samskiptaleysi hafði átt sér stað á milli manna hjá ferðafélaginu sem rekur bátinn sem sótti okkur, því óforvendis birtist háseti klukkan hálf þrjú til að reka á eftir okkur. Við þustum niður á bryggju og út í bát. Ferðinni var að ljúka. Við áttum notalega bátsferð heim, og þau okkar sem áttu bókað flug sama dag til Reykjavíkur náðu því, þótt varla hefði tæpar mátt standa.
Sem sagt, frábær ferð í alla staði. Það eina sem vantaði var Eygló, en hún var heima með bumbuna út í loft.
Myndir
Bragi