7/30/2006

Loksins þrjú stig


Það hlaut að koma að því að mínir menn tækju þumalinn úr rassgatinu á sér og færu að skora mörk. 2-1 fyrir Viking á heimavelli gegn Ham Kam. Verðskuldaður sigur samkvæmt þessu hér.

Bragi

7/28/2006

Sverrir er vinur minn!

Posted by Picasa













Verið góð við hann!

-Bragi

Ég er í lagi!

Þetta er uppáhalds lagið mitt. Ég elska það.

7/26/2006

Sjóðandi höfuðleður

Það er stórmál að koma sér aftur inn í daglega rútínu eftir að hafa verið í fríi.
Hausinn á mér er soðinn. Verkefnin bíða í haugum, en allir í sumarfríi svo fátt gerist.

Bragi

7/25/2006

Hornstrandir heimsóttar

Þá er ég kominn heim í Elliðaárdalinn eftir fimm daga ferðalag um Hornstrandir norð-vestanverðar, frá Hornvík um Hlöðuvík, Fljótavík og Aðalvík að Hesteyri.

Ferðalagið var vel heppnað í alla staði. Veðrið að mestu til eftirbreytni fyrir íslenska verðáttu og ferðafélagarnir brugðust ekki fremur en fyrri daginn.

Ferðalagið hófst á miðvikudegi síðastliðinnar viku (19. júlí) við að Arnar sótti undirritaðann í Hábergið á nýsprautuðum, helbreyttum Nissan Patrol. Allur farangur var þá löngu tilbúinn og óþolinmæði farin að gera vart við sig. Við ókum rakleiðis af stað og létum vart staðar numið fyrr en á tjaldstæðinu á Ísafirði þar sem fleiri ferðafélagar voru að gera sig klára fyrir átökin. Þrem bílum var komið fyrir á Bolungarvík til að ferja mannskapinn aftur til Ísafjarðar þegar til baka yrði komið. Við sváfum um nóttina við lækjarnið.

Morguninn eftir varð heilmikill hasar við að koma mannskapnum niður á höfn. Það hafðist þó með velvilja skiptstjórans sem beið eftir síðustu farþegunum. Siglinginn í Hornvík tók um rúma þrjá tíma og var viðburðalítil, enda þoka á leiðinni og skygni afar takmarkað. Veiðimennirnir í hópnum urðu þó varir við svartfuglsflokka á sjónum. Þegar í Hornvík var komið óðum við í land (enda engin bryggja), og hittum strax fyrir Jón landvörð. Fróður maður með meiru sem fræddi okkur mikið um svæðið og reglum sem ferðalöngum ber að fylgja.

Eftir að við vorum búin að tjalda gengum við út á Hornbjarg og yfir Miðfell. Á Miðfelli skriðum við uppúr þ0kunni og við blöstu Kálfatindar og Jörundur eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Ævintýraleg sjón svo ekki sé meira sagt. Veiðimennska greip tvo ferðalanga sem renndu fyrir fiski í árósi við Hornvík. Aflaðis vel. Eitthvað var um vel heppnaðar veiðar á spendýrum líka en ekki verður farið nánar út í það hér.

Um 11 leitið morguninn eftir var gengið af stað áleiðis í Hlöðuvík í blíðskaparverðri. Útsýnið var með ólíkindum. Við tókum útúrdúr til aðskoða stórfengleg fuglabjörg á leiðinni. Við hittum einnig norsk-hollenska konu á leið frá Hornströndum að Skaftafelli. Ærið ferðalag það og áætlaði hún að það tæki 50 daga. Í Hælavík kveiktum við varðeld eftir að tjöldin voru komin upp. Heldur kalt var í veðri svo við vöktum ekki lengi yfir bálinu, heldur skriðum í pokana.

Þriðji dagur ferðar var tekinn snemma, enda lengsti dagurinn framundan. Um níuleitið var haldið að stað yfir Þorleifsskarð í Fljótavík. Veðrið varð hið besta, þrátt fyrir að kalt hafi verið árla morguns. Gangan var löng og erfið og lá meðal annars meðfram Fljótavatni endilöngu. Við syðri enda vatnsins veiddist sjóbleikja, sem ekki er í frásögur færandi, nema að því leiti að hún veiddist með göngustaf. Magnús sló bleikjuna í rot eftir mikinn atgang þar sem bún spriklaði í grunnum læk. Lágfóta naut góðs af síðar. Við tjölduðum í fallegu veðri við norðurenda vatnsins. Ég sofnaði værum svefni með galopið tjald og sólsetrið allsráðandi á meðan aðrir fengu heimsókn frá nágrönnum okkar í sumarhúsum hinu megin við ósa fljótsins.

Á fjórða degi sváfum við frameftir. Göngan yfir í Aðalvík úr Fljótavík er stutt og átti að njóta hvíldar. Við gengum í fallegu veðri alla leiðina og þegar í Aðalvík var komið biðu okkar gnægtir lúxusmatvæla sem sendar höfðu verið með báti daginn áður. Um kvöldið átum við grillað læri og drukkum kóka kóla, vín og bjór. Svo sátum við fram eftir kvöldi við varðeldeld og nutum lífsins.

Við fórum snemma á fætur á fimmta degi. Arnar stóð fyrir vel útilátnum morgunverði, beikoni, eggjum og tilheyrandi. Eftir að honum hafði verið gerð góð skil var gengið af stað sem leið lá yfir Hesteyrarskarð í átt að Hesteyri þar sem bátur skyldi bíða okkar klukkan fjögur. Gengið var í blíðskaparveðri, því besta hingað til. Við komum í Hesteyri um tvöleitið og gátum því slakað á meðan beðið var eftir bátunum. Á Hesteyri er gistiheimili og kaffihús þar sem við fengum keyptar pönnukökur og kaffi. Ekki amalegt það. Eitthvað samskiptaleysi hafði átt sér stað á milli manna hjá ferðafélaginu sem rekur bátinn sem sótti okkur, því óforvendis birtist háseti klukkan hálf þrjú til að reka á eftir okkur. Við þustum niður á bryggju og út í bát. Ferðinni var að ljúka. Við áttum notalega bátsferð heim, og þau okkar sem áttu bókað flug sama dag til Reykjavíkur náðu því, þótt varla hefði tæpar mátt standa.

Sem sagt, frábær ferð í alla staði. Það eina sem vantaði var Eygló, en hún var heima með bumbuna út í loft.


Myndir

Bragi Posted by Picasa

7/16/2006

Norðmenn vaða yfir Ísland


Erum með norðmenn í heimsókn. Þau, ásamt hábergsbúunum hafa vaðið yfir landið þvert og endilangt í leit að skemmtilegum upplifunum.

Við skruppum meðal annars á Syðstusúlu, Þingvelli, til Akureyrar og Húsavíkur. Auk þess sem við nutum félagsskaps hvers annars. Hér til hliðar er mynda af hópnum af Gunnari 4. en hann hvílir sig í vagninum. Frá vinstri eru Eygló, Bragi, Gunnar 3., Hilde, Hulda og Sigbjörn. Nánar síðar.

7/07/2006

Viking með brúnt í brók?

Mínir menn í norsku deildinni, Viking, ekki að standa með sóma. Eftir 12 leiki stöndum við uppi með 3 sigra, 5 jafntefli og 4 töp og í 10. sæti Tippeligaen, meistaradeild norðmanna.

Síðasti leikur var sérlega niðurlægjandi, en þrændurnir í Rosenborg voru í heimsókn á Viking Stadion og völtuðu yfir okkur 1-3. Það er sérlega niðurlægjandi að tapa fyrir þrændum, en eins og allir vita búa einungis dusilmenni og leigubílstjórar í Þrændalögum. Jævla tröndere!!!

Bragi

7/06/2006

Boot Camp


Ég er enn í Boot Camp, og verð til 9. sept. Boot Camp er frábær hugmynd. Þrjár klukkustundarlangar (2 klukkustunda annan hvern laugardag) æfingar í viku. Engar tvær æfingar eins. Oftast unnið með eigin líkama, armbeygjur, hnébeygjur, hopp, hlaup og fleira í þeim dúr. Mikil áreynsla og mikil hvatning. Oft er lögð áhersla á samstarf.

Svo eru það hvíldarstöðurnar, sem að mínu mati eru alger snilld. Þegar fyrirskipaðir æfingu er lokið er ekki staðið upp á annann endann og beðið eftir hinum. Þátttakendum er skipað í hvíldarstöðu: Armbeygjustaða, 90° "seta" við vegg, á bakinu með fætur fimm cm frá gólfi/jörðu eða olnbogi/tær. Allt eftir því sem best á við hverju sinni. Með þessum hætti nýtist tíminn fullkomlega og vöðvaþol bætist umtalsvert.

Þjálfararnir eru góðir. Þrátt fyrir að þátttakendur séu oft margir og æfingarnar fjölbreyttar kemur aldrei fát á þjálfarana. Hver tími er greinilega vel skipulagður og útfærður fumlaust.

Ég mæli því eindregið með þessu æfingaformi. Ætla að kaupa árskort þegar sumarnámskeiðinu líkur. Þó það kosti 75.000 krónur.

Bragi

7/05/2006

Gunnar Aasheim Gunnarsson


Þessi snillingur er væntanlegur í Hábergið ásamt fylgdarliði. Hábergsbúarnir eru að sjálfsögðu spennt og hlakka til að hitta litla kút.

Það skiptir máli sem skiptir máli

Ítalir tóku Þjóðverja í bakaríið í gær.

Nú þegar Sýn er skyldug til að senda lokaleiki HM óruglaða getur hábergsbúinn loksins farið að fylgjast almennilega með. Leikurinn í gær var góður, og sérlega spennandi þegar nálgaðist lok seinnihluta framlengingar. Sigur Ítala var sannfærandi, og þó afar svekkjandi fyrir Þýskarana. En þeim er svo sem nær að hafa drepið allt þetta fólk í seinni heimstyrjöldinni. Þjóðverjar ættu að gera eins og Earl. Búa sér til lista og breyta rétt eftir honum. Þá myndi þeim ganga vel í alþjóðlegum íþróttamótum.

7/02/2006

Með sinadrátt í tjaldi

Við erum komin heim úr ród trippinu okkar um vestfirði. Ferðalagið var ótrúlega skemmtilegt í alla staði.

Við lögðum af stað úr Reykjavík um hálf tólf á miðvikudagskvöldið síðasta og tókum stefnu á Stykkishólm. Við slógum upp tjaldi þar og kúrðum okkur niður í svefnpokana (ég í nýja dúnpokann sem ég keypti fyrr um daginn í í Nýju skátabúðinni) um tvö leitið eftir miðnætti. Um nóttina varð ljóst að ekki yrði gist í tjaldi aftur í þessari ferð. Það fer óléttum konum ekkert sérlega vel að teygja úr sinadrætti í litlu göngutjaldi.

Við vöknuðum klukkan hálf sjö á fimmtudagsmorgun við vekjaraklukkuna. Breiðafjarðarferjan Baldur leggur af stað klukkan níu að morgni alla daga. Við pökkuðum saman í rólegheitum og keyrðum um borð í ferjuna. Baldur er rúma tvo tíma að sigla yfir Breiðafjörðinn með stuttu stoppi í Flatey. Á leiðinni stálumst við til að borða nestið okkar í matsalnum, og horfðum svo á Forrest Gump í bíósal ferjunnar. Veðrið var yndislegt svo við stungum okkur upp á þilfar við Flatey. Eyjan er komin á lista yfir staði til að heimsækja í framtíðinni.

Eftir að við höfðum keyrt í land á Brjánslæk dóluðum við okkur um mínar gömlu heimaslóðir, Barðaströnd. Við skoðuðum Mórudal, minn fyrsta skóla á Birkimel, borðuðum á ströndinni, og heimsóttum Guðrúnu á Krossi sem passaði mig þegar ég var lítill. Þar vöknuðu margar góðar minningar. Eftir heimsóknina til Guðrúnar keyrðum við á Patreksfjörð með viðkomu hjá Kleifakarlinum. Við sofnuðum værum svefni á gistiheimilinu Eyri eftir að hafa farið í sund og út að borða. Ég mæli með sundlauginni á Patreksfirði. Hún er með því besta sem gerist á landinu.

Á föstudag varð að leysa úr bílavandræðum, en leki hafði komið á vatnskassann í Súkkunni daginn áður. Nokkuð fát kom á okkur, enda ekki ráðlegt að leggja í langferð um heiðar vestfjarða á biluðum bíl. Eftir að hafa þegið mörg misjöfn ráð frá hinum og þessum sérfræðingum og bifvélavirkjum var ákveðið að fara að ráðleggingum Tomma tengdó og hella vatnskassaþétti á vatnskassann. Tommi hafði rétt fyrir sér eins og endranær og kassinn hefur ekki lekið síðan, þrátt fyrir 1200 km akstur. Þegar bílavandræðin voru leyst keyrðum við út á Látrabjarg, þar sem við tókum þessa fínu mynd af okkur saman. Fuglalífið við Látrabjarg er með ólíkindum og er sérstaklega skemmtilegt hvað lundinn er gæfur. Það er nánast hægt að snerta fuglinn þar sem hann situr á bjargbrúninni (ef maður hættir sér nógu nálægt brúninni). Eftir að hafa stoppað til að borða í Breiðuvík brunuðum við yfir á Rauðasand. Þar snerum við við á punktinum og stoppuðum ekki fyrr en á Bíldudal þar sem við gistum þriðju nóttina okkar á ferðalagi. Þar grilluðum við úti á svölum á gistiheimilinu okkar og mér tókst að hella upp á kaffi með nýja prímusnum mínum. Mikil gleði það.

Að morgni fjórða dags borðuðum við morgunmat á svölunum og keyrðum svo út í Selárdal þar sem listamaðurinn Samúel Jónsson hélt til þegar hann var á lífi. Þar hefur hann reist merkilega kirkju og íbúðarhús auk undarlegra listaverka sem athyglivert er að skoða. Þar á meðal þessa styttu af Leifi heppna sem sjá má í góðum félagsskap á myndinni hér til vinstri. Eftir að hafa skoðað Selárdal héldum við norður yfir Dynjandisheiði þar sem við stoppuðum meðal annars til að skoða Dynjandafoss, sem er ótrúlega fallegur. Eftir það, héldum við áfram til gegnum Ísafjörð, með viðkomu á Dýrafjarðardögum á Þingeyri alla leið til Hólmavíkur þar sem við áttum pantaða gistingu um nóttina. Við röltum um bæinn um kvöldið, en Hamingjudagar á Hólmavík, bæjarhátið hólmvíkinga stóð einmitt yfir þessa helgi. Við fórum þó frekar snemma að sofa með tappa í eyrunum, enda ball í næsta húsi við gistiheimilið. Sú var tíðin að maður hefði dúndrað á ball og djammað fram á rauða nótt, en eitthvað er farið að slá í okkur skötuhjúin sökum elli fyrir aldur fram, svo við létum það liggja á milli hluta.

Fimmti dagur, heimferðardagur, reis. Við pökkuðum saman og keyrðum heim á leið, yfir Tröllatunguheiði sem er skemmtilegur "sjortkött" sem hægt er að fara ef maður er á sæmilega háum bíl.

það er óhætt að mæla með svona ródtrippi um Vestfirði. Passið bara að hafa nægann tíma fyrir stafni og ekki vera hrædd við að taka útúrdúra til að skoða allt það ótrúlega sem þetta svæði hefur upp á að bjóða.


Myndir úr ferðalaginu
Bragi